„Það gengur vel, Arnar Þór er þarna sem yfirmaður knattspyrnumála. Hann og aðrir hjá félaginu hafa hjálpað mér að koma mér vel fyrir,“ segir Andri Lucas Guðjohnsen framherji íslenska landsliðsins og Gent í samtali við 433.is.
Andi Lucas var seldur frá Lyngby í Danmörku til Gent í Belgíu í sumar og líður vel á nýjum stað.
„Stórt skref upp á við, þetta er stór klúbbur í Belgíu. Þetta er öðruvísi á jákvæðan hátt, ef við berum saman við Lyngby sem er frábær klúbbur. Núna er maður á hærra gæðastigi, stór klúbbur og miklar væntingar.“
Andri var á mála hjá Norrköping í Svíþjóð og fékk ekki þau tækifæri sem hann taldi sig eiga skilið, hann tók skrefið til Lyngby og sprakk út. Þá gerast hlutirnir hratt.
„Þetta er fljótt að gerast, svona er boltinn og sérstaklega þegar maður er framherji. Það þarf 3-4 góða mánuði og þá gerast hlutirnir hratt.“
Hann segir Arnar Þór Viðarsson fá mikla virðingu hjá Gent. „Þetta er stórt verkefni og starf sem hann fékk, það líta allir mjög vel til Arnars. Það er nýtt þjálfarateymi og nýir leikmenn, það er verið að byggja upp nýtt lið.“
Íslenska landsliðið mætir Svartfjallalandi á föstudag í Þjóðadeildini en leikið er á Laugardalsvelli, þremur dögum síðar er svo leikur við Tyrkland á útivelli.
„Það er búið að vera í smá tíma svipaður hópur og sömu leikmenn, búnir að fá nokkur verkefni saman í röð. Það hjálpar, við munum eiga góða leiki í Þjóðadeildinni og góða undankeppni þegar kemur að því.