Það var mikill hasar undir lok á leik Aftureldingar og Fjölnis í Lengjudeild karla í gær, um var að ræða fyrri leik liðanna í undanúrslitum um laust sæti í efstu deild.
Elmar Kári Enesson Cogic stal sviðsljósinu þá, fyrst með því að klikka á vítaspyrnu í uppbótartíma.
Þegar verið var að flauta til leiks fékk svo Elmar sitt annað gula spjald og þar með rautt. Hefur Elmar verið sakaður um að sækja sér rauða spjaldið viljandi.
Elmar keyrði þá af fullum krafti í bakið á varnarmanni Fjölnis og fékk sitt annað gula spjald.
Ástæðan á að vera sú að fyrra gula spjaldið sem Elmar fékk var hans fjórða í sumar og þá var hann komin í leikbann. Leikbannið tekur hins vegar ekki gildi fyrr en á þriðjudag í næstu viku.
Seinni leikur Aftureldingar og Fjölnis fer fram á mánudag og úrslitaleikurinn um laust sæti í Lengjudeildinni fer fran annan laugardag. Í viðtalið við Fótbolta.net hafnar Elmar þessu alfarið og segir. „„Ég klúðraði þessu víti, og er bara pirraður. Ég bara missi hausinn þarna, þetta er ekkert flóknara en það,“ sagði Elmar og sagðist ekki hafa vitað að hann væri á leið í bann.