Jude Bellingham mun aldrei gleyma því sem Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, sagði við hann eftir leik Sunderland og Rotherham í næst efstu deild Englands í ágúst í fyrra.
Bellingham var þá búinn að ná samkomulagi við Real en bróðir hans, Jobe, lék með Sunderland og skoraði tvennu gegn Rotherham.
Jude hafði áhyggjur um stutta stund eftir ummæli Ancelotti sem sagði að Real hefði keypt rangan Bellingham, að Jobe væri demanturinn sem félagið væri á eftir.
Ítalinn geðþekki var þó aðeins að grínast í Jude sem stóð sig svo frábærlega á sínu fyrsta tímabili á Spáni.
,,Ég var steinhissa eftir að hann skoraði tvennuna en ég mun aldrei gleyma því sem ég heyrði eftir leik,“ sagði Bellingham.
,,Ancelotti gekk upp að mér og sagði einfaldlega: ‘Andskotinn, við höfum keypt rangan leikmann.’
,,Ég sagði að hann væri að grínast og hann svaraði: ‘Nei í alvöru, ég ætla að fá hann hingað.’ Ég spurði þá hvar hann ætlaði að spila honum og svarið var: ‘Þar sem þú spilar!’
,,Hann brosti svo til mín og ég hugsaði með mér að þetta væri í lagi, engin pressa á mér í dag!“