Fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti Íþróttavikunnar á 433.is, en þættirnir koma út vikulega í mynd og á hlaðvarpsveitum.
Það var að sjálfsögðu rætt um karlalandsliðið í fótbolta í þættinum, en Emil á að baki 73 A-landsleiki og fór á bæði EM 2016 og HM 2018 sem leikmaður. Fór Emil meðal annars yfir nokkur lykilatriði á bak við árangur gullaldarliðs Íslands.
„Það var alltaf markmiðið að vera best skipulagða lið í heimi, vera bestir í heimi í föstum leikatriðum, sóknar og varnarlega. Ef við erum góðir í því, þéttir til baka og það kunna allir sínar færslur og svoleiðis, þá áttu að geta tekið stig,“ sagði Emil og að þetta eigi einnig við um landsliðið í dag.
„Við verðum að átta okkur á því að við verðum aldrei neitt svaka „possession“ lið. Allavega alls ekki á móti stóru þjóðunum,“ bætti hann við.
„Þetta var stundum þannig að okkur fannst bara voða þægilegt að liggja til baka. Við vissum að við gætum breikað og við gátum líka haldið boltanum í ákveðinn tíma þegar við þurftum. En að byggja eitthvað upp frá vörn, það hefur aldrei verið okkar leikur,“ sagði Emil enn fremur um lið Íslands upp á sitt besta.
Umræðan í heild er í spilaranum.