Fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti Íþróttavikunnar á 433.is, en þættirnir koma út vikulega í mynd og á hlaðvarpsveitum.
Það var farið um víðan völl í þættinum og meðal annars rætt um írska landsliðið undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, sem Emil þekkir vel frá tímanum með íslenska landsliðinu.
Heimir stýrði Írlandi í fyrstu leikjunum á dögunum, 0-2 töp gegn Englandi og Grikkjum í Þjóðadeildinni. Eitthvað hefur verið um gagnrýni frá fjölmiðlum og stuðningsmönnum í kjölfarið en Emil segir Heimi þurfa tíma.
„Pressan þarna er létt rugluð. Þetta eru tveir leikir og annar á móti Englandi. Heimir er nýtekinn við. Hann hefur gert þetta áður. Hann þarf smá meiri tíma og ef einhver getur snúið þessu við hjá þeim er það Heimir,“ sagði hann.
„Hann er góður maður á mann og á hópinn. Það er ekkert kjaftæði í kringum hann. Ég er spenntur fyrir því að sjá hann snúa þessu við. Þú getur ekkert gert það á nokkrum dögum eftir að þú tekur við.“
Umræðan í heild er í spilaranum.