Í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is ræddu þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson meðal annars um mál sem rataði á borð Aganefndar KSÍ úr leik milli Stjörnunnar og FH í Bestu deild karla.
Þar áttu í hlut Böðvar Böðvarsson, leikmaður FH, og Guðmundur Kristánsson, leikmaður Stjörnunnar. Böðvar veitti Guðmundi olnbogaskot en Guðmundur svaraði með því að slá til Böðvars.
Aganefnd úrskurðarði í vikunni að Guðmundur fengi eins leiks bann fyrir sitt athæfi en Böðvar slapp við bann.
„Þetta er náttúrulega bara vitleysa. Þetta eiga alltaf að vera þrír leikir á Gumma og 1-2 á Bödda. Þarna ertu líka bara að gefa færi á að leikmaður geti hamrað einhvern, þið getið ekkert gefið honum meira en einn leik í bann,“ sagði Hrafnkell í þættinum.
„Þetta er viðmið sem er búið að setja en samt ekki. Við sáum Omar Sowe og leikmann Dalvíkur/Reynis fá tvo leiki (fyrir svipuð atvik). Vandamálið er að það er mismunandi fólk í aganefndum ár frá ári. Það þarf að vera eitthvað staðlað: Að hrækja á leikmann eru fimm leikir, að bíta leikmann átta leikir, eitthvað svona sem meikar sens,“ sagði hann enn fremur.
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar