Í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is ræddu þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson meðal annars um vandamál sem komið hefur upp í tengslum við heimaleiki Víkings í Sambandsdeildinni.
Forráðamenn Víkings berjast nú í bökkum við að fá undanþágur frá UEFA til að tryggja að heimaleikir liðsins í deildarkeppni Sambansdeildarinnar, sem liðið tryggði sér nýlega þátt í, geti farið fram hér á landi en ekki í Þórshöfn í Færeyjum, eins og annars verður niðurstaðan.
Víkingsvöllur stenst ekki kröfur, framkvæmdir fara af stað á Laugardalsvelli á næstunni en Víkingar vonast til að niðurstaðan verði sú að hægt verði að koma upp ljósabúnaði á Kópavogsvelli sem mun tryggja að leikirnir fari fram hér á landi.
Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, ritaði pistil á Vísi um málið á dögunum sem hefur valdið nokkurri úlfúð.
„Það má alveg fjárfesta í íþróttamannvirkjum ef þessar fjárfestingar nýtast okkur. Upphitað gervigras eykur til dæmis nýtingu valla, líka vegna æfinga barna. En aðskildar stúkur, snúningshlið og flóðljós til að tryggja sjónvarpsútsendingar á nóttunni um vetur nýtast okkur ekki til neins nema til að uppfylla einhverjar tilbúnar „kröfur“ annarra. Kannski er kominn til að fara að setja spurningamerki við þær,“ segir meðal annars þar.
Þetta var rætt í Íþróttavikunni.
„Pawel er oft með góðar pælingar en mér fannst hann skóta sig heiftarlega í fótinn þarna. Hann var að gefa í skyn að kröfum UEFA séu í raun óeðlilegar og vísar skömminni þangað. En þetta er rosalega „irrelevant“ pistill sem gerir lítið úr vandanum. Mér finnst eins og menn átti sig ekki á niðurlægingunni sem það er fyrir íslenskan fótbolta að fara með heimaleik til Færeyja,“ sagði Helgi áður en Hrafnkell tók til máls.
„Hann var líka ekki með staðreyndirnar á hreinu, sem er verra þegar þú ert stjórnmálamaður á launum og þú þarft að fá menn á þitt band með þínum skoðunum. Það var margt vont við þennan pistil. Maður sá það líka á skrifunum að hann er ekki með neinn rosalegan bakgrunn úr íþróttum,“ sagði hann.
„Þetta segir manni hvernig viðhorf stjórnvalda er oft í garð íþrótta,“ sagði Helgi að endingu um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar