Það gæti andað köldu á milli Erik ten Hag stjóra Manchester United og Alejandro Garnacho leikmanns liðsins eftir að hann líkaði við færslu þar sem stjórinn er gagnrýndur.
Garnacho setti „læk“ við færslu þar sem fjallað er um ummælli Cristiano Ronaldo um Ten Hag frá því í gær.
Ronaldo sem er fyrrum framherji Manchester United sagði að Erik ten Hag geti ekki leyft sér að tala eins og hann hefur gert undanfarnar vikur. Það andar köldu á milli Ronaldo og Ten Hag eftir að hollenski stjórinn henti Ronaldo burt frá United undir lok árs 2022.
Ten Hag hefur undanfarið rætt að United sé langt frá því að geta farið að berjast um sigur í deild og Meistaradeildar.
„Manchester United, þarf að endurbyggja allt upp á nýtt að mínu mati. Þjálfarinn, segir að liðið geti ekki unnið neitt. Stjóri Manchester United getur ekki sagt þannig hluti,“ sagði Ronaldo.
„Þú verður að hafa hugarfarið, þú ert kannski ekki með besta liðið en þú verður að trúa því að þú setjir allt í hlutina og reynir.“
Ronaldo sagði svo að Ten Hag ætti kannski að hlusta á Ruud van Nistelrooy ef hann hefði áhuga á að ná árangri.