fbpx
Þriðjudagur 20.ágúst 2024
433Sport

Nærmynd af nýju félagi Jóa Berg í Sádí – Spila nálægt eyðimörk og þjálfarinn kærði fyrrum vinnuveitanda sinn

Helgi Sigurðsson
Þriðjudaginn 20. ágúst 2024 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og 433.is greindi frá í gær er Jóhann Berg Guðmundsson á leið til Al-Orobah, sem leikur í efstu deildinni í Sádi-Arabíu á komandi leiktíð. Al-Orobah er nýliði í deildinni og hefur ekki spilað þar í níu ár.

Jóhann, sem er þaulreyndur landsliðsmaður Íslands, kemur frá Burnley í ensku B-deildinni. Hann yfirgaf félagið í vor en endursamdi til eins árs í sumar og ákvað að taka slaginn með liðinu í B-deildinni eftir fall úr úrvalsdeildinni. Nú tekur hann hins vegar aðra U-beygju og heldur til Sádí, þangað sem hann flaug í gær til að ganga frá smáatriðum.

Mikill uppgangur hefur verið í fótboltanum í Sádi-Arabíu undanfarin ár og eru félög þar í landi gjörn á að borga ansi góð laun. Jóhann verður ekki eini Íslendingurinn þar í landi á komandi leiktíð, en Sara Björk Gunnarsdóttir skrifaði undir hjá Al Qadsiah á dögunum.

Frá heimavelli Al-Orobah.

Spila nálægt eyðimörk

Hjá Al-Orobah bíða menn spenntir eftir komandi leiktíð í efstu deild, en liðið hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð og fór þannig upp. Það er ekkert smá verkefni sem bíður liðsins í fyrsta leik, en þar mætir liðið stórliði Al-Ahli. Það má einmitt búast við að Jóhann verði löglegur í þeim leik. Með Al-Ahli leika menn á borð við Riyad Mahrez, Roberto Firmino, Gabri Veiga og Edouard Mendy. Þá spilar liðið heimaleiki sína á hinum glæsilega King Abdullah Sports City leikvanginum sem tekur yfir 60 þúsun manns í sæti.

Leikvangur Al-Orobah er öllu minni, en hann tekur 7 þúsund manns í sæti. Liðið spilar þó ekki sinn fyrsta heimaleik fyrr en í fjórðu umferð gegn Al-Fateh. Al-Orubah er frá borginni Sakaka, sem staðsett er norðvestur-hluta Sádí. Þaðan eru næstum 10 klukkustundir til höfuðborgarinnar Ríad og er Sakaka þá staðsett rétt norðan af Nafud-eyðimörkinni, sem er yfir 100 þúsund ferkílómetrar að stærð. Hitastig í borginni fer vel yfir 40 gráður á sumrin. Í Sakaka búa um 330 þúsund manns og er borgin meðal annars þekkt fyrir merkilegar fornleifar.

Frá Nafud-eyðimörkinni.

Regluleg þjálfaraskipti

Al-Orobah var stofnað árið 1975. Besti árangur liðsins var að vinna næstefstu deild árið 2013 og í kjölfarið lék liðið í efstu deild í tvö tímabil. Þá féll liðið hins vegar og 2019 féll það alla leið niður í C-deildina. Þar dvaldi liðið í tvö tímabil, en það sigraði C-deildina árið 2021. Við tóku tvö ár þar sem liðið hafnaði um miðja B-deildina en í fyrra endaði liðið í öðru sæti og flaug upp.

Þjálfari Al-Orobah er Portúgalinn Alvaro Pacheco. Hann tók við í sumar af Bosníumanninum Rusmir Cviko. Félagið skiptir gríðarlega oft um þjálfara, en Pacheco er sá tíundi á um fimm árum. Kappinn stýrði síðast Vasco da Gama í Brasilíu um stutt skeið, en hann hefur einnig starfað hjá nokkrum félögum í heimalandinu. Þar á meðal er Vitoria, þar sem hann starfaði á síðustu leiktíð. Hann kom liðinu í Sambandsdeild Evrópu en í vor fór hann í viðræður við félag í Brasilíu, þar sem hann að lokum fékk ekki starfið. Forseti Vitoria trylltist og rak Pacheco fyrir þetta ferðalag sitt. Þjálfarinn átti þarna eftir að kæra forsetann fyrir ærumeiðingar í kjölfar brottrekstursins.

Pacheco hefur verið nokkuð duglegur við að sækja leikmenn í sumar og nú bætist Jóhann í þann hóp. Það má gera ráð fyrir því að markmið Al-Orobah á leiktíðinni verði að bjarga sér frá falli. Ef marka má veðbanka er liðið eitt af þeim líklegri til að enda í fallsætunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Besta deildin: ÍA vann meistarana á útivelli – Blikar með öruggan sigur

Besta deildin: ÍA vann meistarana á útivelli – Blikar með öruggan sigur
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

England: Vardy hetjan gegn Tottenham

England: Vardy hetjan gegn Tottenham
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Trent vildi ekki tala við blaðamenn – ,,Get ekki ímyndað mér hvað þið viljið ræða“

Trent vildi ekki tala við blaðamenn – ,,Get ekki ímyndað mér hvað þið viljið ræða“
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Dómarinn viðurkenndi mistök – ,,Hefði getað breyt leiknum“

Dómarinn viðurkenndi mistök – ,,Hefði getað breyt leiknum“
433Sport
Í gær

Henry segir starfi sínu lausu

Henry segir starfi sínu lausu
433Sport
Í gær

Myndband: Kastaði af sér þvagi í miðjum leik – Átti eftir að iðrast þess

Myndband: Kastaði af sér þvagi í miðjum leik – Átti eftir að iðrast þess