Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og deildarstjóri íþróttafræði deildar Háskólans í Reykjavík, segir íslenskan fótbolta setja niður við ítrekuð brjálæðisköst og „trúðslæti“ þjálfara í deildinni. Í kraftmiklum pistli á Facebook-síðu sinni segir Hafrún að slík hegðun þekkist ekki í flestum öðrum íþróttagreinum og biður hún íslenska þjálfara um að hysja upp um sig og taka sig taki.
Tilefni pistilsins er framkoma Arnar Gunnlaugssonar, þjálfara Íslandsmeistara Víkings í knattspyrnu, sem brjálaðist í leik liðsins um helgina og var rekinn af velli. Úthúðaði hann svo dómurum leiksins í viðtali eftir leikinn og má búast við löngu keppnisbanni.
„Síðustu tvö eða þrjú tímabil hafa ítrekað komið upp atvik þar sem þjálfarar í tveimur efstu deildum í íslenskum karla fótbolta haga sér eins og trúðar. Þeir gjörsamlega missa stjórn á skapi sínu, og gera hluti sem hvergi annarstaðar en á hliðarlínunni væru taldir ásættanlegir. Umfjöllun um þessi skapofsaköst fullorðinna manna í ábyrgðastöðu er furðu oft á þá leið að þessi tryllingur sé að einhverju leiti skiljanlegur þar sem „það sé svo mikið undir“, „það sé svo mikið passion í þessu“ og það sé fínt að „það séu tilfinningar í þessu”“. Jú og stundum er þetta skiljanlegt því einhver annar aðili stóð sig ekki nógu vel (oftast dómarinn) og því sé þetta réttlætanleg reiði. Aftur, hvergi annarstaðar væru svona afsakanir á ofsafenginni hegðun teknar gildar – þær þættu í flestum tilfellum fáranlegar og þá eru flestar íþróttagreinar heims meðtaldar. Það er ekki þannig að ef þú hafir mikla ástríðu fyrir einhverju að þá sé bara eðlilegt að taka brjálæðisköst,“ skrifar Hafrún.
Hafrún er nýkomin frá Ólympíuleikunum í París þar sem hún stóð vaktina sem sálfræðingur íslenska hópsins og fylgdist þar með afreksfólki í fjölmörgum íþróttagreinum í miklu návígi. Segir hún að afreksþjálfarar sem þjálfa íþróttamenn í allra fremstu röð hegði sér einfaldlega ekki með þessum hætti.
„Hafið þið séð Þóri Hergeirsson eða Alferð Gíslason haga sér svona? Og það þarf nú ekki endilega að nefna menn sem spila til úrslita um ÓL gull. Við getum líka nefnt menn eins og Óskar Bjarna (sem reyndar hefur spilað til úrslita á ÓL) og Finn Frey. Ég get alveg lofað ykkur því að þessir menn hafa mikla ástríðu og það er hellingur undir hjá þeim líka. Munurinn á þeim og þeim fótboltaþjálfurum sem haga sér, jafnvel ítrekað, eins og trúðar er að þeir hafa ásættanlega færni í tilfinningastjórnun. Tilfinningastjórnun er einmitt hæfni sem er afskaplega mikilvæg í íþróttum. Þeir íþróttamenn sem eiga erfitt með að stjórna kvíða, steitu, reiði, pirring osfv eiga erfiðara uppdráttar en þeir sem hafa þolanlega stjórn á tilfinningum sínum,“ skrifar Hafrún.
Segir hún að skapofsaköst þjálfara, eins og Arnar sýndi af sér, vera furðu algeng í íslenskum fótbolta en þekkist þó einnig í handbolta og körfubolta þó í minna mæli sé.
„Ég hef hinsvegar aldrei séð þjálfara í öðrum íþróttagreinum missa sig gjörsamlega. Það er ekki afþví að því að þeir hafi eitthvað minna passion en íslenskir fótboltaþjálfarar. Ég sat við hliðina á þjálfara sundmanns sem var dæmdur ógildur í sundkeppni á ÓL. Hann var svekktur, mögulega ekki sammála ákvörðun dómarans en hafði fullkomna stjórn á tilfinningum sínum. Það var meira undir í þessu sundi en í leik Vestra og Víkings – því get ég lofað ykkur. Ég gæti líka nefnt endalaus dæmi úr öðrum greinum, frjálsum, fimleikum og svo framvegis þar sem þjálfurum á efsta stig (sko raunverulegu efsta stigi) fannst halla á sína íþróttamenn í dómgæslu. Aldrei hef ég séð eða heyrt af slíkum tryllingi sem virðist vera bara allt að því daglegt brauð í íslenskum fótbolta,“ skrifar Hafrún.
Hún tekur fram að hún hafi mjög gaman af íslenskum fótbolta og vilji deildarkeppninni allt hið besta. Breytinga sé þó þörf.
„Ég fæ hinsvegar kjánahroll þegar þessi trúðslæti byrja og svo umræðan í kjölfarið. Mér finnst íslenskan fótbolta setja niður við þetta. Ég held að það sé vandamál að það er, að minnsta kosti að hluta til, samfélagslega viðurkennt að þjálfarar megi haga sér svona á hliðarlínunni, þessvegna leyfa þeir sér að haga sér eins og fífl. Það er ekki gott. Mig langar að biðja þessa þjálfara að hysja upp um sig, æfa sig að hafa lágmarks stjórn á tilfinningum sínum og vonandi í kjölfarið að hætta að haga sér eins og trúðar. Ég gæti látið lífið úr kjánahrolli ef þetta heldur mikið svona áfram.“