Samkvæmt mjög öruggum heimildum 433.is verður Aron Einar Gunnarsson kynntur sem leikmaður Þórs á Akureyri í dag.
Aron er samningslaus eftir að samningur hans við Al-Arabi í Katar rann út í síðasta mánuði.
Þessi 35 ára gamli fyrirliði íslenska landsliðsins er því að mæta heim í Þorpið og tekur slaginn með uppeldisfélaginu í Lengjudeildinni.
Samkvæmt heimildum 433.is eru þó áfram yfirgnæfandi líkur á því að Aron skrifi undir erlendis áður en félagaskiptaglugginn lokar í lok þessa mánaðar.
Aron hefur glímt við nokkur meiðsli undanfarið ár en er að komast á skrið og vonast til að geta hjálpað Þór í þeirri baráttu sem félagið er í. Þór á áfram veika von að ná fimmta sæti Lengjudeildarinnar sem gefur sæti í umspil um laust sæti í deildinni en frammistaða liðsins í sumar hefur verið vonbrigði.
Aron Einar yfirgaf Þór fyrir 18 árum þegar hann gekk í raðir AZ Alkmaar í Hollandi, hann lék eftir það með Coventry og Cardiff í enska boltanum áður en hann hélt til Katar sumarið 2019.
Aron hefur spilað 103 landsleiki fyrir hönd Íslands og í flestum þeirra verið fyrirliði liðsins.