Tveimur leikjum er lokið það sem af er kvöldi í Lengjudeild karla.
Þór vann afar mikilvægan sigur á Gróttu fyrir norðan. Pétur Theódór Árnason kom gestunum yfir seint í fyrri hálfleik en heimamenn sneru taflinu við í þeim seinni. Ragnar Óli Ragnarsson jafnaði leikinn áður en Kristófer Kristjánsson kom Þórsurum yfir. Rafael Victor innsiglaði svo 3-1 sigur í restina.
Þór er nú í sjötta sæti með 13 stig, jafnmörg og Grindavík sem er sæti ofar en hefur þó spilað leik minna. Grótta er í tíunda sæti og hefur ekki unnið í sex leikjum í röð.
Fjölnir og Keflavík gerðu þá markalaust jafntefli í fremur bragðdaufum leik í Grafarvoginum.
Fjölnir er áfram á toppi deildarinnar, nú með 24 stig. Keflavík er í áttunda sæti með 12 stig.