Tveimur leikjum var að ljúka í Lengjudeild karla.
ÍR skellti Aftureldingu óvænt í Breiðholti. Afturelding er þar með búin að tapa þremur leikjum af síðustu fjórum í kjölfar þess að það virtist sem liðið væri að komast á skrið.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en heimamenn unnu leikinn að lokum 3-0 með mörkum frá Braga Karli Bjarkasyn ,Kristjáni Atla Marteinssyni og sjálfsmarki Arnars Daða Jóhannessonar.
ÍR er þar með komið upp fyrir Aftureldingu og í fimmta sæti, umspilssæti. Liðið er með 16 stig en Mosfellingar 14.
Grindavík vann þá nágranna sína í Njarðvík á útivelli. Adam Árni Róbertsson skoraði eina mark leiksins á 83. mínútu.
Grindvíkingar eru í fjórða sæti með 16 stig en Njarðvíkingar eru áfram í öðru sæti með 20 stig, nú 4 stigum á eftir toppliði Fjölnis.