Leikur Vals gegn Vllaznia í undankeppni Sambandsdeildarinnar fer fram á heimavelli síðarnefnda liðsins í Albaníu þrátt fyrir hegðun stuðningsmanna liðsins og stjórnarmanna á fyrri leik liðanna hér heima. Þetta staðfestir Jörundur Áki Sveinsson, starfandi framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við 433.is.
Stuðningsmenn, starfsfólk og háttsettir einstaklingar Vllaznia létu öllum illum látum á leiknum, sem lauk 2-2. Það var hrækt á dómara, hann sleginn, öryggisvörður kýldur og hvað eina. Þá var stuðningsmönnum, stjórnarmönnum, leikmönnum og öðrum sem tengjast Val hótað.
Meira
Sláandi uppákoma að Hlíðarenda náðist á myndband – Líflátshótanir og lögregla kölluð til
Því hefur mikið verið velt upp hvort Vllaznia fái að spila heimaleik sinn í Albaníu eða þá hvort eða hvernig refsingu félagið hljóti fyrir hegðun stuðnings- og stjórnarmanna hér á Íslandi. Jörundur segir að málið sé á borði UEFA en að engin ákvörðun um refsingu muni liggja fyrir áður en að leiknum á fimmtudag kemur.
Leikur Vllaznia og Vals hefst klukkan 16 á fimmtudag að íslenskum tíma. Sem fyrr segir er staðan í einvíginu jöfn en sigurvegari þess mætir St. Mirren í 2. umferð undankeppninnar.