Íslenskur toppfótbolti hefur samið við Livey um kaup á sjónvarpsrétti fyrir Lengjudeild karla út tímabilið 2024 og hefur Livey nú þegar hafið útsendingar frá deildinni. Livey er tiltölulega ný streymisveita sem hefur verið að ryðja sér til rúms og hefur meðal annars tryggt sér sjónvarpsréttindin á ítölsku, spænsku og belgísku deildinni ásamt sýningarrétti frá öðrum íþróttagreinum.
„Við erum gríðalega ánægð að hafa náð samningum við Livey um sjónvarpsréttindin á Lengjudeild karla. Með tilkomu úrslitakeppninnar í Lengjudeildinni finnum við fyrir auknum áhuga á deildinni sem hefur skilað sér í að í fyrsta skipti fá félögin greitt fyrir sýningarréttinn á deildinni sem er mikið fagnaðarefni.“
Segir Birgir Jóhannsson framvæmdarstjóri ÍTF
„Það er okkur sönn ánægja að ýta Livey Sport áskriftinni á streymisveitunni okkar úr vör með Lengjudeildinni, en við höfum undanfarin ár átt frábært samstarf við félögin þar. Með því að nýta þá tækniframþróun sem hefur orðið í streymistækni stefnum við á að auka verulega framboð á íþróttaefni, bæði innlendu og erlendu og gera það enn aðgengilegra,“
segir Guðjón frá Livey
Meðfram þessum samningi verður unnið hörðum höndum að því að bæta framleiðslu á deildinni og auka gæði útsendinga. Framleiðslan verður áfram að hluta til í höndum OZ en sænska fyrirtækið Spiideo kemur einnig að framleiðslunni. Allir leikir verða aðgengilegir inn á https://www.livey.events/livey-sport og einn leikur í hverri umferð verður áfram í opinni dagskrá á YouTube. Hægt er að kaupa aðgengi að öllu efni sem í boði er á Livey Sport þ.m.t. Lengjudeildinni á 3.200 kr.á mánuði en einnig er í boði að kaupa staka leiki í deildinni á 1.000 kr. per leik.