Kristján var á leið heim frá Orkumótinu í Vestmannaeyjum en Keflvíkingar voru að mæta ÍBV og því á leið í hina áttina. Leikur liðanna í Lengjudeildinni hófst klukkan 16 en það vakti athygli Kristjáns að leikmenn Keflavíkur voru að mæta til Eyja aðeins einum og hálfum tíma fyrir leik.
„Þú þarft að bera virðingu fyrir útileikjum. Ég var að koma frá Eyjum í gær og átti bátinn 14:30. Þar voru Keflvíkingar að rölta út úr bátnum 90 mínútum fyrir leik. Kommon. Hvernig fór leikurinn?“ sagði Kristján, en Eyjamenn unnu leikinn 5-0.
„Þetta er bara djók. Báturinn byrjar að ganga klukkan 8 á morgnanna. Drullastu bara til að taka fyrsta eða annan bát yfir. Þetta er bara ófagmannlegt og mér fannst þeir eiga skilið að tapa.“
Mikael Nikulásson var einnig í þættinum að vanda en hann telur að breytt ferðatilhögun hefði litlu breytt fyrir Keflvíkinga, en þeim hefur gengið illa undanfarið.
„Ég held það hefði ekki skipt miklu máli. Þeir eru í tómu rugli,“ sagði hann.