Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld.
Í Breiðholti tók ÍR á móti ÍBV. Oliver Heiðarsson kom Eyjamönnum yfir strax í upphafi leiks en heimamenn svöruðu skömmu síðar með marki Braga Karls Bjarkasonar.
ÍR tók svo forystuna skömmu fyrir hlé en þá skoraði Sæþór Ívan Viðarsson. Sverrir Páll Hjaltested jafnaði svo fyrir ÍBV snemma í seinni hálfleik og þar við sat. Lokatölur 2-2.
ÍBV er í fimmta sæti deildarinnar með 7 stig en ÍR í því áttunda með stigi minna.
Þá tók Grótta á móti Þrótti og skildu liðin jöfn, 1-1. Mörkin gerðu Viktor Andri Hafþórsson fyrir Þrótt og Grímur Ingi Jakobsson fyrir Gróttu.
Grótta er í þriðja sæti með 10 stig en Þróttur í því níunda með 5 stig.