Fjórum leikjum er nýlokið í Lengjudeild karla.
Afturelding tapaði öðrum leik sínum í röð. Liðið tók á móti Fjölni í kvöld en Axel Freyr Harðarson gerði eina markið í 0-1 sigri gestanna. Mosfellingar eru í sjöunda sæti deildarinnar með 11 stig, 9 stigum á eftir Fjölni sem er í öðru sæti.
Þór lyfti sér upp úr fallsæti með öruggum 1-3 sigir á Dalvík/Reyni. Elmar Þór Jónsson, Sigfús Fannar Gunnarsson og Alexander Már Þorláksson gerðu mörk Þórs en Borja Lopez Laguna skoraði fyrir Dalvíkinga. Þór er í níunda sæti með 9 stig, 2 stigum meira en Dalvík/Reynir sem er komið í fallsæti.
ÍR vann annan leik sinn í röð með sigri á Gróttu. Arnar Daníel Aðalsteinsson í liði Gróttu var rekinn út af snemma leiks en þrátt fyrir það skoruðu heimamenn fyrsta mark leiksins snemma í seinni hálfleik. Það gerði Tómas Orri Róbertsson. Breiðhyltingar sneru dæminu hins vegar við með þremur mörkum á síðasta stundarfjórðungnum. Þau gerðu Bergvin Fannar Helgason, Bragi Karl Bjarkason og Guðjón Máni Magnússon. ÍR er í fimmta sæti með 12 stig en Grótta í áttunda með 10 stig.
Loks vann Leiknir 3-1 sigur á Þrótti og liðið þar með komið upp úr fallsæti. Jón Hrafn Barkarson, Shkelzen Veseli og Omar Sowe gerðu mörk liðsins í kvöld en Jorgen Pettersen skoraði mark Þróttar. Leiknir er í tíunda sæti með 9 stig en Þróttur á botninum með 6 stig.