Jón Dagur Þorsteinsson var hetja Íslands og skoraði eina markið er liðið lagði England á Wembley á dögunum. Hann yfirgaf leikvanginn um kvöldið með treyju leikmanns Liverpool í farteskinu.
Eins og flestir vita skiptast leikmenn gjarnan á treyjum eftir leiki. Um tíma leit út fyrir að Jón Dagur fengi enga treyju í þetta skiptið en það gat hann ekki sætt sig við.
„Ég fékk Trent (Alexander-Arnold). Ég þurfti reyndar að kaupa hana af Loga Tómassyni,“ sagði Jón Dagur í Chess After Dark og útskýrði þetta svo nánar.
„Mér fannst svo leiðinlegt að hafa ekki fengið neina treyju. Ég spurði (Bukayo) Saka. Hann gaf mér klassíska svarið: „Ég er búinn að lofa öðrum.“ Þannig ég dílaði við Loga,“ sagði hann en bætti við að í draumaheimi hefði hann viljað fá treyjuna frá sínum manni, Cole Palmer.