Starf Gregg Ryder sem þjálfari karlaliðs KR er ekki í hættu þrátt fyrir slakt gengi í undanförnum leikjum. Fréttir um brottför Óskars Hrafns Þorvaldssonar frá Haugesund í Noregi hafa engin áhrif á hans stöðu.
Þetta segir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, í stuttu spjalli við 433.is nú í morgunsárið.
„Það er ekkert að gerast hjá okkur. Það er bara áfram gakk. Við erum bara að halda okkar striki,“ segir Páll, spurður út í stöðu Gregg í ljósi gengisins undanfarið.
Meira
Óskar Hrafn óvænt hættur með Haugesund – „Þetta er mikið sjokk“
Óskar Hrafn hætti með Haugesund fyrir helgi og í kjölfarið fóru af stað orðrómar um að hann gæti tekið við KR-ingum.
Það sem ýtir undir þessa orðróma er svo að KR hefur aðeins fengið 1 stig í síðustu fjórum leikjum í Bestu deildinni en Páll segir ekkert í gangi á bak við tjöldin í Vesturbænum.
„Þetta er nýbyrjað svo við erum ekkert að stressa okkur.“
KR er með 7 stig í áttunda sæti Bestu deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn FH í Kaplakrika eftir viku.