Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, setti met sem hann hefði þó síður viljað setja í tapi gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær.
Um seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum var að ræða en þeim fyrri lauk með 3-3 jafntefli á Spáni. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma í gær einnig, sem og framlengingu og því farið í vítaspyrnukeppni. Þar hafði Real Madrid betur og er komið í undanúrslit.
De Bruyne byrjaði leikinn í gær og spilaði allt þar til á 112. mínútu, þegar honum var skipt af velli.
Á tíma sínum inni á vellinum tapaði Belginn boltanum 37 sinnum. Það er það mesta í Meistaradeildinni hjá nokkrum leikmanni á þessari leiktíð.
City þarf nú að einbeita sér að deildinni og bikarnum en ljóst er að vonin um að vinna þrennuna annað árið í röð er farin fyrir bí.