Óskar Hrafn Þorvaldsson og lærisveinar hans í Haugesund unnu 1-0 sigur á Tromsö í norsku úrvalsdeildinni í gær. Var þetta annar sigur liðsins í þremur deildarleikjum.
Óskar er á sínu fyrsta tímabili með liðið en fögnuður liðsins inn í klefa eftir leik vekur nokkra athygli og sérstaklega hjá Íslendingum.
Eftir leik var fagnað vel undir laginu Barfly sem hljómsveitin Jeff Who gerði vinsælt en um er að ræða stuðningsmannalag Víkings í seinni tíð.
Meðlimir Jeff Who eru miklir Víkingar en Óskar Hrafn eldaði grátt silfur við Víkinga í gegnum ár sín sem þjálfari Breiðabliks.
Lagavalið vekur því athygli í ljósi sögunnar en Óskar sést í myndbandinu dansa og syngja með.