Tveir leikir fóru fram í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld og var mikið stuð.
Í París tóku heimamenn í PSG á móti Barcelona. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og kom Raphinha þeim verðskuldað yfir á 37. mínútu leiksins. Staðan í hálfleik var 0-1.
Lið PSG kom hins vegar öflugra inn í seinni hálfleik og fyrrum leikmaður Barcelona, Ousmane Dembele, jafnaði leikinn á 48. mínútu. Aðeins örfáum mínútum síðar var Vitinha búinn að skora annað mark heimamanna og snúa leiknum við.
Börsungar áttu hins vegar eftir að taka leikinn yfir á ný og Raphinha jafnaði eftir frábæra sendingu Pedri á 62. mínútu. Daninn Andreas Christensen skoraði svo sigurmark leiksins á 77. mínútu.
Barcelona leiðir 3-2 fyrir seinni leikinn í Katalóníu.
Atletico Madrid tók á móti Dortmund í hinum leik kvöldsins. Heimamenn byrjuðu mun betur og kom Rodrigo de Paul þeim yfir á 4. mínútu. Samuel Lino bætti við marki eftir rúman hálftíma og staðan í hálfleik 2-0.
Sebastian Haller náði hins vegar inn mikilvægu marki fyrir Dortmund á 81. mínútu leiksins. Lokatölur 2-1 og allt galopið fyrir seinni leikinn í Þýskalandi.