Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Tveir dagar eru í að íslenska karlalandsliðið spili hreinan úrslitaleik við Úkraínu um sæti á EM í sumar. Liðin hafa fjórum sinnum mæst áður.
Leikurinn fer fram í Wroclaw í Póllandi en þaðan flýgur liðið yfir frá Búdapest í dag, en undanúrslitaleikurinn gegn Ísrael fór fram hér í borg.
Úkraína er talið mun sigurstranglegri aðilinn í leiknum á fimmtudag. Liðið er í 24. sæti heimslistans á meðan Ísland er í 73. sæti.
Þegar sagan á milli þessara liða er skoðuð er allt hnífjafnt. Liðin hafa mæst fjórum sinnum, unnið einn leik hvor og tveimur lauk með jafntefli.
Sigur Íslands kom árið 2017 og var liður í undankeppni HM árið eftir, sem Ísland komst inn á. Þar skoraði Gylfi Þór Sigurðsson bæði mörkin í 2-0 sigri.
Tveir leikmenn úr byrjunarliðinu þar eru í hópi Íslands í dag, Sverrir Ingi Ingason og Jóhann Berg Guðmundsson.
Byrjunarlið Íslands í sigrinum 2017
Hannes Þór Halldórsson
Birkir Már Sævarsson
Sverrir Ingi Ingason
Ragnar Sigurðsson
Hörður Björgvin Magnússon
Jóhann Berg Guðmundsson
Emil Hallfreðsson
Aron Einar Gunnarsson
Birkir Bjarnason
Gylfi Þór Sigurðsson
Jón Daði Böðvarsson