fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
433Sport

Rússíbanareið Alberts: Útilokaður, tekinn inn á ný, útilokaður aftur og nú á hátindi ferilsins

Helgi Sigurðsson
Föstudaginn 22. mars 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albert Guðmundsson er sennilega fremsti landsliðsmaður okkar Íslendinga í knattspyrnu um þessar mundir. Kappinn fór á kostum í gær, skoraði þrennu er íslenska liðið vann það ísraelska 4-1 í undanúrslitum umspils um sæti á EM. Hvað félagsliðaboltann varðar er Albert á frábærum stað, er hvað besti leikmaður Genoa í efstu deild Ítalíu. Albert, sem er 26 ára gamall, hefur lengi verið í umræðunni og á árum áður talinn vonarstjarna Íslands. Nú er kappinn að standa undir væntingum. Við skoðum feril Alberts, innan vallar sem utan.

Þetta er í genunum

Eins og flestir vita er faðir Alberts Guðmundur Benediktsson og móðir hans Kristbjörg Ingadóttir. Guðmund þarf vart að kynna fyrir fólki. Hann er sennilega ástsælasti íþróttalýsandi landsins og átti hann frábæran knattspyrnuferil hér á landi. Kristbjörg gerði þá garðinn frægan með Val og spilaði fjóra A-landsleiki.

Gummi Ben

Fótboltagenin ná þó lengra aftur í ættir því afi Alberts í móðurætt er Ingi Björn Albertsson. Hann spilaði lengst af fyrir Val en einnig FH og Selfoss. Hann spilaði 15 A-landsleiki. Ingi sat einnig á Alþingi, sem og langafi Alberts og alnafni, Albert Guðmundsson. Albert eldri, sem var bæði fjármála- og iðnaðarráðherra, var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn. Hann spilaði til að mynda með Arsenal og AC Milan, en hann var aðeins annar erlendi leikmaðurinn til að spila fyrir enska stórliðið.

Það var því nokkuð ljóst að hvað genin varðar hafði Albert yngri allt til brunns að verða afbragðs knattspyrnumaður.

Albert Guðmundsson, eldri.

Upp og niður í Hollandi en sló í gegn á Ítalíu

Það sást fljótt í hvað stefndi hjá Alberti sem var byrjaður að sýna snilli sína og raða inn mörkum með KR í yngri flokkunum. Það fór svo að hann var keyptur til hollenska félagsins Heerenveen aðeins 16 ára gamall. Þar spilaði hann við góðan orðstýr með U19 og U21 árs liðinu og í kjölfarið keypti hollenska stórliðið PSV hann. Félagið hafði lengi reynt við Albert og hann kom inn í varaliðið til að byrja með. Markmiðið var að sjálfsögðu að brjóta sér leið inn í aðalliðið.

Albert spilaði fyrsta leik sinn fyrir aðallið PSV í ágúst 2017 en þrátt fyrir frábæran árangur með Jong PSV í B-deildinni tókst honum aldrei að festa sig í sessi hjá aðalliðinu. Hann spilaði aðeins tólf leiki fyrir það og lagði upp fjögur mörk í þeim.

Getty Images

Það fór svo að Albert yfirgaf PSV 2018 og gekk í raðir AZ Alkmaar. Þar fór hann vel af stað en síðla árs 2020 tók Pascal Jansen við liðinu. Sá hafði verið aðstoðarmaður Arne Slot, sem var látinn taka pokann sinn. Jansen virtist ekki ánægður með Albert. „Hópurinn stefnir að því að vera með ákveðinn kúltúr og hlutirnir voru ekki í lagi. Þetta snýst ekkert um það hvort þú getir tekið slaginn gegn mér, leikmenn eiga ekki að búa til aðstæður sem búa til núning innan hópsins,“ sagði hann meðal annars.

Albert spilaði hann afar lítið þetta tímabilið. Á næsta tímabili, 2020-2021, var hann hins vegar kominn aftur inn í myndina undir stjórn Jansen. Skoraði hann sjö mörk og lagði upp fjögur það tímabil. Hann hélt áfram að heilla á tímabilinu þar á eftir og í janúar 2022 var komið að því að ítalska úrvalsdeildafélagið Genoa fékk hann til liðs við sig.

Þar féll Albert að vísu niður í B-deildina á sínu fyrsta tímabili með Genoa en tímabilið 2022-2023 tók hann yfir þá deild. Fór hann á kostum en þá kom upp stóra spurningin: Getur hann gert þetta allt saman deild ofar? Það kom á daginn að svo var. Á yfirstandandi tímabili er Albert með tíu mörk og þrjár stoðsendingar. Er hann orðaður við hvert stórliðið á fætur öðru. Í janúar rembdist Fiorentina eins og rjúpan við staurinn að fá hann en Genoa vildi ekki sleppa honum. Nú er útlit fyrir að Albert fái skipti í enn stærra félag þegar hann fer frá Genoa.

Stríð við landsliðsþjálfarann og mátti ekki spila

Albert spilaði sinn fyrsta landsleik í janúarverkefni árið 2017 og er hann alls kominn með 35 A-landsleiki undir beltið. Það er þó óhætt að segja að landsliðsferill Alberts hafi ekki gengið hnökralaust fyrir sig. Hann var alls ekki inni í myndinni hjá Arnari Þór Viðarssyni, sem tók við landsliðinu síðla árs 2020. Arnar gagnrýndi hugarfar Alberts, sagði hann ekki tilbúinn að koma inn í íslenska landsliðið á forsendum liðsins.

Faðir Alberts, áðurnefndur Guðmundur Benediktsson, stakk niður penna í kjölfar þess að Albert var ekki valinn í landsliðshópinn fyrir verkefni í undankeppni EM 2024 í mars í fyrra.

„Rétt er að taka fram að ég geri enga kröfu á að Albert eigi að vera í landsliðshópi. AÞV var ráðinn til að stjórna því og getur gert hvað sem honum sýnist í þeim efnum. En endalausar árásir að heiðri og persónu Alberts þegar hann er ekki í hópnum mun ég ekki líða lengur og þykir mér með ólíkindum að Knattspyrnusambandið láti þetta viðgangast. Í síðustu viku bjallaði AÞV í Albert og ræddi mögulega endurkomu Alberts í landsliðið. Þeir áttu fínt samtal, samkvæmt Alberti, en niðurstaðan var að Albert taldi best að hann gæfi ekki kost á sér í þetta verkefni af ýmsum ástæðum.

Getty Images

AÞV heldur því fram að eina ástæðan sé að Albert neiti að vera varamaður sem er ekki rétt. „Ég vel ekki leikmenn sem vilja ekki vera á bekknum,“ sagði Arnar við fjölmiðla. Fjölskylduástæður spiluðu stóra rullu í ákvörðun Alberts ásamt stöðu Genoa í ítölsku deildinni og það veit AÞV mæta vel en ákveður að láta leikmanninn líta illa út enn og aftur. Þess má líka geta að Albert hefur aldrei tjáð sig um þjálfarann og persónuna AÞV þrátt fyrir ótal tækifæri til að fara í leðjuslaginn sem AÞV virðist elska og fjölmiðlar apa upp eftir honum. Ég kalla þetta leikþátt og ég stend við það þar sem ég er þess fullviss að AÞV hafði engan áhuga á að velja Albert en taldi sig nauðbeygðan þar sem Alberti hefur gengið vel á Ítalíu að undanförnu,“ sagði meðal annars í pistli Guðmundar sem birtist á Vísi fyrir um ári síðan.

Svo fór að Arnar Þór var látinn taka pokann sinn í fyrravor og Age Hareide tók við. Albert var aldeilis inni í myndinni hjá þeim norska sem valdi hann í landsliðshóp sinn um sumarið. Í kjölfarið var Albert hins vegar kærður fyrir kynferðisbrot og samkvæmt reglum KSÍ mátti Hareide ekki velja hann áfram. Albert var því fjarverandi í landsliðverkefnum í haust og vetur. Svo var málið látið niður falla og Albert var valinn aftur í landsliðshópinn fyrir umspil EM 2024, sem nú stendur yfir. Konan sem kærði hann fyrir kynferðisbrot áfrýjaði þó ákvörðun um niðurfellingu og málið því virkt á ný. Sú ákvörðun var hins vegar tekin að Albert yrði áfram með íslenska landsliðinu í umspilinu. Svo fór að hann var langbesti leikmaður liðsins og skoraði þrennu í undanúrslitunum gegn Ísrael.

Framtíðin er enn óljós. Mál gegn Alberti stendur enn yfir í kjölfar áfrýjunar konunnar. Samkvæmt reglum KSÍ mætti ekki velja hann í næsta landsliðsverkefni, sem verður mögulega lokakeppni Evrópumótsins, ef málið verður enn í gangi. Albert getur þó haldið áfram að láta ljós sitt skína með Genoa og það verður spennandi að sjá hvaða stórlið, ef eitthvað, hreppir hann í sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

500 manns fengu óvæntan glaðning eftir langt ferðalag

500 manns fengu óvæntan glaðning eftir langt ferðalag
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

England: Dramatískur sigur Forest gegn Aston Villa

England: Dramatískur sigur Forest gegn Aston Villa
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Leikmaður íslenska landsliðsins segir næsta landsliðsþjálfara þurfa að hafa þetta

Leikmaður íslenska landsliðsins segir næsta landsliðsþjálfara þurfa að hafa þetta
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Tuchel ætlar ekki að breyta til

Tuchel ætlar ekki að breyta til
433Sport
Í gær

Fernandes kemur sínum manni til varnar eftir tvö slæm mistök – ,,Höfum bullandi trú“

Fernandes kemur sínum manni til varnar eftir tvö slæm mistök – ,,Höfum bullandi trú“
433Sport
Í gær

Landsliðsmaðurinn viðurkennir að val Arnars Þórs hafi verið „algjört sjokk“ fyrir sig

Landsliðsmaðurinn viðurkennir að val Arnars Þórs hafi verið „algjört sjokk“ fyrir sig