Samkvæmt öruggum heimildum 433.is lagði Breiðablik fram tveggja milljóna króna tilboð í Aron Jóhannsson sóknarmann Vals. Greint var frá tilboðinu í dag.
Valur hafnaði tilboðinu strax og samkvæmt heimildum 433.is þótti mönnum þar á bæ tilboðið í besta falli hlægilegt. Aron er ekki til sölu eftir því sem 433.is kemst næst.
Aron snéri heim úr atvinnumennsku fyrir tveimur árum og hafnaði þá tilboði Breiðabliks og valdi að fara í Val.
Aron er 34 ára gamall en hann átti afar gott tímabil á síðustu leiktíð þegar Valur endaði í öðru sæti.
Ekki er ólíklegt að Blikar horfi á Aron sem mann til að fylla í skarð Gísla Eyjólfssonar sem er á leið í atvinnumennsku.