Umræða um þetta hefur verið hávær undanfarin ár en allar helstu deildir Evrópu nota VAR í leikjum þar. Þóroddur var í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpinu Mín Skoðun og var hann þar spurður út í hvort það séu einhverjar líkur á að VAR verði notað hér heima á næsta tímabili.
„Ég á erfitt með að átta mig á því. Ég myndi kannski segja, eins og staðan er akkúrat núna, að það séu minni líkur en meiri. En við erum að vinna að þessu og ég get alveg sagt það, hafandi verið dómari í öll þessi ár, að ef við erum að gera stór mistök í leik, sem hafa mögulega áhrif á úrslit leikja, auðvitað myndum við vilja fá hjálpina strax ef það er í boði. Frekar en að við sitjum uppi með mistökin. Dagarnir og tíminn eftir að við gerum mistök eru rosalega erfiðir, sérstaklega ef við höfum áhrif á úrslit leikja og kannski framhald tímabilsins hjá liðum,“ sagði Þóroddur.
Hann var einnig spurður út í það hvernig framkvæmdin á VAR hér á landi yrði og hvar hindranirnar séu.
„Mörgum spurningum er ósvarað en eins og þetta lítur út fyrir mér er þetta bara spurning um að finna lausnir og sigrast á þessu öllu. Það er óvissa með myndavélarnar, hvernig við ætlum að innleiða þetta og hversu mikið í einu. Það er óvissa með hvort við náum að þjálfa nógu marga dómara, eins og ef við ætlum að hafa VAR í öllum leikjum. Við þurfum lengri tíma en fyrsta skrefið ætti að vera að gera þetta eins og Finnarnir á síðustu leiktíð. Þeir innleiddu þetta í völdum bikarleikjum,“ sagði Þóroddur enn fremur í þættinum Mín Skoðun.