Simon Hallett, stjórnarformaður Plymouth, hafnar því að knattspyrnustjórinn Wayne Rooney sé valtur í sessi hjá félaginu.
Plymouth hefur unnið aðeins fjóra leiki á tímabilinu eftir að Rooney tók við í sumar. Niðurstaðan í síðasta leik var til að mynda 4-0 skellur gegn Bristol City.
Næstu leikir Plymouth eru gegn Oxford og Swansea á heimavelli og var sagt frá því fyrr í vikunni að þeir leikir myndu ákvarða framtíð Rooney.
Hallet segir hins vegar við The Athletic að ekkert sé til í þeim sögusögnum og félagið sé ekki farið að horfa í kringum sig í leit að nýjum stjóra.
Þess má geta að íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er á mála hjá Plymouth.