Knattspyrnumaðurinn Valentin Barco og unnusta hans, Yaz Jaureguy, lentu í miður skemmtilegu atviki á dögunum þegar brotist var inn á heimili þeirra.
Parið býr í Sevilla á Spáni en þar spilar Barco á láni frá Brighton í ensku úrvalsdeildinni.
Innbrotið átti sér stað á meðan parið var úti að borða í borginni og má segja að óprúttnu aðilarnir hafi skilið allt eftir í rúst.
„Komum heim og þetta var staðan. Það er skrýtið að flytja til lands með stóra drauma en geta ekki búið í friði. Þú getur ekki treyst eigin skugga,“ skrifar Jaureguy á samfélagsmiðla.
Hún virðist svo varpa fram kenningu um að einhver sem þau þekki hafi átt í hlut.
„Við erum með myndavélar. Mennirnir voru hér í 50 mínútur og fóru 10 mínútum áður en við komum til baka. Það furðulega er að starfsmaður vissi um áætlanir okkar og hann fór 7 mínútum áður en innbrotsþjófarnir mættu.“