Árið 2024 var gert upp í Íþróttavikunni á 433.is á dögunum. Þá mættu Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óli Sigurðsson í settið til Helga Fannars og Harðar Snævars.
Enski boltinn var meðal þess sem var til umræðu og var til að mynda rætt um Manchester United. Liðinu hefur gengið hörmulega á leiktíðinni það sem af er og kaup liðsins í sumar ekki staðið eftir væntingum.
Einn þeirra sem gekk í raðir félagsins er Joshua Zirkzee, sem kom frá Bologna á Ítalíu.
„Óíþróttalegasti gæi sem ég hef séð inni á fótboltavelli,“ sagði Ríkharð um þann ágæta mann.
„Ég fór nú á Old Trafford um daginn á United-Everton. Hann skoraði tvö mörk en fyrsta hálftímann gólaði maður bara: Hvenær fer hann út af. Ég hef aldrei séð svona lélegan fótboltamann á Old Trafford,“ sagði Hörður þá ómyrkur í máli.