Árið 2024 var gert upp í Íþróttavikunni á 433.is á dögunum. Þá mættu Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óli Sigurðsson í settið til Helga Fannars og Harðar Snævars.
Það var að sjálfsögðu rætt um karlalandsliðið í handbolta í þættinum. Liðið datt út í milliriðli á EM á árinu sem er að líða en er á leið á HM eftir áramót, þar sem andstæðingarnir í riðlinum verða Slóvenar, Grænhöfðaeyjar og Kúba.
„Ég nenni ekki upp úr einhverjum riðli í 300. skipti. Ég vil keppa um einhvern málm,“ sagði Kristján ómyrkur í máli í þættinum.
Lykilmaðurinn Ómar Ingi Magnússon verður ekki með á mótinu vegna meiðsla. Er það mikið áfall en það má líka finna í því tækifæri segja spekingarnir.
„Það er of mikið af líkum leikmönnum og of mikið hnoð. Þegar við fengum Þorstein Leó inn á móti Ísrael var einhver sem gat hoppað upp upp úr engu og dúndrað á markið. Handbolti þarf ekki alltaf að vera flókin,“ sagði Ríkharð og hélt áfram.
„Gísli og Ómar eru gegnumbrotsgæjar. Þeir vilja fara í gegnum varnirnar. En það er auðvitað hræðilegt að vera ekki með Ómar.“
En hvernig getur Ísland farið sem lengst á mótinu? „Við þurfum að vera með markvörsluna í lagi. Það er númer 1, 2 og 3. Þetta er mjög einfalt,“ sagði Ríkharð.
Umræðan í heild er í spilaranum.