Árið 2024 var gert upp í Íþróttavikunni á 433.is á dögunum. Þá mættu Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óli Sigurðsson í settið til Helga Fannars og Harðar Snævars.
Kvennalandsliðið í fótbolta var að sjálfsögðu til umræðu í þættinum en liið átti frábært ár, tryggði sig á enn eitt stórmótið og vann Þýskaland þá 3-0.
„Það var frábær leikur. Steini (Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari) er að smíða eitthvað sérstakt þarna. Sveindís að setja fjögur í Meistaradeildinni og við erum með besta miðvörð í heimi,“ sagði Kristján í þættinum.
„Ég er ánægður með Steina. Það voru einhverjir að tala um að hann væri ekki að ná neitt með þetta lið. Hann bara hlustaði ekki á þetta,“ sagði Ríkharð.
Hörður benti á að sigurinn á Þýskalandi hafi verið fyrir framan þétt setinn Laugardalsvöll, en þar var til að mynda mikið af iðkendum frá Símamótinu.
„Svona sigur fyrir framan fullan völl býr til áhuga hjá krökkum sem er vel gert.“