Árið 2024 var gert upp í Íþróttavikunni á 433.is á dögunum. Þá mættu Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óli Sigurðsson í settið til Helga Fannars og Harðar Snævars.
Ein stærsta frétt ársins var þegar Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur til Íslands og gekk í raðir Vals. Gylfi átti mjög gott sumar en Valur olli vonbrigðum og var langt frá Íslandsmeistaratitlinum.
Það var til að mynda rætt um framtíð hins 35 ára gamla Gylfa í þættinum, en Víkingur bauð til að mynda í hann í haust.
„Ég held að Valur hleypi honum ekki út af stolti en ég held að Gylfi hefði mikinn áhuga á að fara í Víking,“ sagði Hörður í þættinum.
Benti hann þá á samband Gylfa og Kára Árnasonar, yfirmanns knattspyrnumála í Víkinni, en þeir voru auðvitað báðir hluti af gullaldarliði Íslands.
„Þetta eru engin geimvísindi, Kári Árnason og Gylfi Þór Sigurðsson tala mikið saman og þó menn vilji ekki segja það virkar fótboltaheimurinn þannig að þú gerir aldrei tilboð í leikmenn nema að það sé búið að ræða við leikmanninn fyrirfram og að hann sé opinn fyrir því að fara.“
Telja meðlimir þáttarins að Gylfi gæti vel átt hlutverk í íslenska landsliðinu nú á efri árum á ferlinum.
„Gylfi er ekki að fara að spila 90 mínútur fyrir okkur en það þarf að selja honum það að þegar menn eins og Hákon og Albert eru orðnir þreyttir að hann geti komið inn og jafnvel unnið fyrir okkur leiki,“ sagði Hörður.
Umræðan í heild er í spilaranum.