Jökull var á láni hjá Aftureldingu frá Reading er liðið tryggði sig upp í Bestu deild í haust en gekk svo endanlega í raðir uppeldisfélagsins. Hann var um árabil hjá enska liðinu og oft lánaður út í neðri deildir, þar á meðal til utandeildarliðsins Hungerford. Það var vægast sagt áhugaverð upplifun.
„Við spiluðum bara í halla. Þú þurftir að fara upp brekku til að komast hinum megin á völlinn. Vellirnir voru það lélegir. Þetta var mesti viðbjóður sem ég hef upplifað í lífi mínu,“ sagði Jökull léttur í bragði í þættinum.
Þá var Jökull heppinn að ekki fór verr eftir atvik í einum leiknum með Hungerford.
„Ég dó næstum því þarna. Ég er núll að grínast. Ég fékk tvo heilahristinga á innan við fimm vikum. Eftir seinni heilahristinginn fór ég í skanna og var kominn með einhverja blóðdropa í heilann. Það var gæi sem hnjáaði mig í hausinn, eða ég skutlaði mér í hnéð á honum til að vera sanngjarn.
Ég fór til heilalæknis og hann segir við mig: „Ég ætla að vera hreinskilinn, ég veit ekki hvort þú verðir góður eftir sex vikur eða bara hvort þú sért að fara að deyja í næstu viku.“ Ég var þarna 17 ára bara: „OK, kúl. Hvað ertu að segja þarna fíflið þitt?“ Þetta var rosalegt og ég tók einmitt einhverja sex vikna pásu,“ sagði Jökull enn fremur.