Cristiano Ronaldo hefur komið landa sínum Ruben Amorim til varnar en sá síðarnefndi er stjóri Manchester United í dag.
Ronaldo er fyrrum leikmaður United og þekkir félagið vel en Amorim hefur ekki byrjað of vel eftir að hafa tekið við í nóvember.
Ronaldo segir að það sé ekki alltaf lausnin fyrir United að breyta um þjálfara og að stærri vandamál séu til staðar innan félagsins.
,,Enska úrvalsdeildin er erfiðasta deild í heimi. Öll lið eru góð, öll lið berjast, öll lið hlaupa og öll lið eru sterk. Fótboltinn er á öðrum stað í dag. Það eru engir auðveldir leikir lengur,“ sagði Ronaldo.
,,Ég sagði þetta fyrir ári síðan en vandamálið eru ekki þjálfararnir. Þetta er eins og fiskabúr. Ef þú ert með veikan fisk í fiskabúri þá tekurðu hann út og lagar vandamálið – ef þú setur hann inn í sama búr þá veikist hann aftur.“
,,Vandamálið hjá Manchester United er það sama og áður. Þetta er ekki alltaf þjálfarinn, þetta er meira en það.“