Víkingur fær ekki að spila hér á landi í útsláttarkeppni Sambansdeildarinnar og nú er komið í ljós að liðið fær ekki heldur að spila hjá nágrönnum okkar í Færeyjum, eins og mikið hefur verið rætt um.
Þetta staðfesti Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, við Fótbolta.net. Víkingur fær ekki undanþágu til að spila á Kópavogsvelli eins og í deildarkeppninni fyrir áramót, þar sem liðið tryggði sér áframhaldandi þátttöku í keppninni.
Ástæðan þess að UEFA gefur heldur ekki grænt ljós á að spila í Færeyjyum er sú að samgöngur til landsins eru ótraustar og falla reglulega niður vegna þoku.
Fyrsti kostur Víkings er að spila leikinn í Skandinavíu og kemur Kaupmannahafnarsvæðið þar til að mynda til greina.
Víkingur mætir gríska liðinu Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambansdeildarinnar. Fyrri leikurinn er heimaleikur Víkings, hvar svo sem hann verður spilaður, og sá seinni fer fram í Grikklandi.