Michael Owen, fyrrum leikmaður Liverpool og Manchester United, hjólaði í síðarnefnda liðið eftir 0-3 tap gegn Bournemouth á sunnudag.
Tók hann sérstaklega fyrir atvik þar sem Noussair Mazraoui braut af sér innan teigs, gaf víti og þar með annað mark gestanna.
„Þetta er svo heimskulegt, hvað í ósköpunum ertu að gera? Hann er ekki að fara að skora þarna. Stattu í lappirnar. Þetta er ömurleg ákvörðun,“ sagði Owen.
Hann segir nýja stjórann Ruben Amorim hafa mikið verk fyrir höndum, en United siglir inn í hátíðirnar í neðri hluta töflunnar í ensku úrvalsdeildinni.
„Það sorglega við Manchester United þessa dagana er að ef þeir lenda 1-0 undir þá hefurðu í raun enga trú á að þeir geti snúið leiknum við. Þeir eru ekki gott lið.
Ruben Amorim þarf að vera harður og ekki leyfa þeim sem standa sig ekki að klæðast treyjunni á ný.“