Guðmundur Benediktsson, ástsælasti íþróttalýsandi þjóðarinnar, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Guðmundur stýrir umfjöllun um Bestu deild karla á Stöð 2 Sport og var rætt um deildina í þættinum. Þar var KR sérstaklega tekið fyrir og komandi tímar undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar, sem tók við sem þjálfari á miðju tímabili.
„Það fyllti mig strax bjartsýni þegar Óskar tók við. Hann er frábær þjálfari sem mun gera allt sem hann getur til að rífa KR upp í hæstu hæðir. Hvort það verði á næsta tímabili er ég ekkert alveg sannfærður um,“ sagði Guðmundur, sem er stuðningsmaður KR og fyrrum leikmaður liðsins.
„Ég fæ ótrúlega góða tilfinningu þegar KR er að æfa. Það er yfirleitt klukkan 11 á virkum dögum og ég heyri hverja einustu æfingu og hvað Óskar vill að sé gert, ég heyri það heim sko. Sit við eldhúsborðið og heyri að Óskar vill meiri kraft, vill þetta og hitt. Ég hef trú á því að við munum sjá gjörólíkt KR-lið. Það verður mikill kraftur í þessu liði,“ sagði hann.
Umræðan í heild er í spilaranum.