Glódís Perla Viggósdóttir og Orri Steinn Óskarsson eru knattspyrnufólk ársins 2024 samkvæmt niðurstöðu Leikmannavals KSÍ.
Glódís Perla Viggósdóttir er Knattspyrnukona ársins í þriðja sinn og þriðja árið í röð. Líkt og áður hefur hún verið einn af lykilleikmönnum Bayern München og íslenska landsliðsins og er fyrirliðið beggja liða. Glódís varð þýskur meistari með Bayern í vor sem leið, en liðið tapaði ekki leik í deildinni – vann 19 og gerði þrjú jafntefli. Glódís lék alla 22 leiki liðsins og skoraði eitt mark. Hún lék alla sex leiki liðsins í Meistaradeild UEFA, en þar datt Bayern út eftir riðlakeppnina og fjóra leiki í bikar. Á yfirstandandi tímabili hefur Glódís leikið 11 leiki. Glódís, sem hefur leikið 132 leiki og skorað 11 mörk, lék alla leiki A kvenna í undankeppni EM 2025 og skoraði í þeim leikjum eitt mark.
2. sæti: Sveindís Jane Jónsdóttir
3. sæti: Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
Orri Steinn Óskarsson er Knattspyrnumaður ársins í fyrsta sinn. Orri Steinn hefur fest sig í sessi sem lykilmaður í íslenska landsliðinu og lék hann 8 leiki með liðinu á árinu og skoraði í þeim 3 mörk. Hann hefur alls leikið 14 A-landsleiki og skoraði í þeim 5 mörk. Orri Steinn átti frábært tímabili með FC Köbenhavn í Danmörku á liðnu tímabili, lék 27 leiki í deildinni og skoraði í þeim 10 mörk og lagði upp 6, auk 3 bikarleikja (2 mörk) og 6 leikja í Meistaradeild UEFA. Orri Steinn hóf nýtt tímabil frábærlega með danska liðinu, skoraði 5 mörk í 6 leikjum ásamt því að skora 2 mörk í 6 leikjum í Sambandsdeildinni áður en hann var seldur til spænska úrvalsdeildarliðsins Real Sociedad. Þar hefur hann leikið 11 leiki í deildinni og skoraði í þeim 2 mörk ásamt því að leika 4 leiki í Evrópudeildinni og skora 1 mark.
2. sæti: Albert Guðmundsson
3. sæti: Hákon Arnar Haraldsson