Freyr tók við fyrir um ári síðan og bjargaði Kortrijk á magnaðan hátt frá falli úr belgísku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Gengið undanfarið hefur ekki verið gott og liðið í þriðja neðsta sæti eftir 18 leiki. Einhverjir stuðningsmenn kölluðu eftir höfði Freys sem nú er farinn.
„Þeir áttu erfitt með að horfa í augun á mér. Þetta eru tveir til þrír menn í stjórninni sem taka þessa ákvörðun. Ég setti kröfu um að ég myndi fá að koma í klúbbinn og kveðja alla, sem þekkist náttúrulega ekki hérna,“ segir Freyr.
„Ég fór og kvaddi hvern einasta starfsmann og leikmann, þar á meðal þá. Þá þurftu þeir að horfa í augun á mér. Ég vil ekkert að menn séu að kveljast sko en ég hafði samt pinku gaman að því,“ segir Freyr enn fremur, léttur í bragði.
Freyr tjáði sig einnig um brottreksturinn á samfélagsmiðlum.
„Ég verð að byrja á að segja að ég er í áfalli yfir hversu margir hafa haft samband undanfarin sólarhring. Stuðninginn met ég mikils.
Ég get sagt ykkur það að mér líður vel. Ég veit að ég gerði allt til að lækna þetta félag en nokkrir aðilar ákváðu að ég mér myndi ekki takast það. Ég veit að mér hefði tekist það ef allir væru að róa í sömu átt. Ég hef lært svo mikið um bransann undanfarið ár. Það er gjöf.“