Guðmundur Benediktsson, ástsælasti íþróttalýsandi þjóðarinnar, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Málefni FH voru að sjálfsögðu til umræðu í þættinum. Mörgum var brugðið eftir að lesa skýrslu sem Hafnarfjarðarbær lét Deloitte vinna fyrir sig um bókhald FH í tengslum við byggingu á knatthúsinu Skessunni.
Meira
Hafnarfjarðarbær sendir langt erindi til FH og krefst svara – „Þessi ákvörðun er tekin án samþykkis“
Á meðal þess sem fram kom var að Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, fékk 61 milljón króna fyrir að stýra byggingarframkvæmdum á Skessunni, sem ekki var gert ráð fyrir í samkomulagi við bæinn. Þá hefur félag í eigu bróður hans, Jóns Rúnars Halldórssonar, Best Hús, fengið nærri 400 milljónir króna greiddar frá FH undanfarin ár. Samkvæmt ársreikningum þess félags námu tekjurnar þó aðeins 99 milljónum króna á árunum 2018-2022.
„Maður er búinn að heyra af þessari skýrslu í að verða tvo mánuði. Svo kemur úrdráttur úr þessu og mér fannst eiginlega erfitt að lesa þetta, margt af þessu. Það er margt sjokkerandi að lesa þarna. En ég er á því að bíða aðeins með að koma með stóra sleggjudóma. Við eigum eftir að fá einhver fleiri svör frá FH og kannski sérstaklega knattspyrnudeildinni, sem virðist vera miðpunkturinn í þessu,“ sagði Guðmundur í þættinum.
„Ég vona innilega að þetta verði allt saman í lagi því þetta er ömurlegt fyrir FH og þá aðila sem eru flæktir inn í þetta. Vonandi fáum við eðlilegar útskýringar á þessu.“
Umræða um málið í heild er í spilaranum.