Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segir að það megi taka margt jákvætt úr tapinu gegn Danmörku í vináttuleik í kvöld.
Liðin mættust á Spáni í öðrum vináttuleik Íslands í þessum landsleikjaglugga, en þeim fyrri lauk með markalausu jafntefli gegn Kanada. Niðurstaðan í kvöld var 0-2 tap.
„Auðvitað er danska liðið gott og allt það. Við vorum í smá basli í fyrri hálfleik í varnarleiknum og tímasetningum á pressu aðallega, vorum að stíga upp þegar liðið var ekkert klárt í að stíga upp allt saman. En þegar við gerðum þetta skipulega vorum við að koma okkur í góð færi og stöður,“ sagði Þorsteinn á samfélagsmiðlum KSÍ eftir leik.
Hann segir frammistöðuna hafa verið töluvert betri í seinni hálfleik.
„Sérstaklega varnarlega. Við fórum aðeins yfir þetta í hálfleik og gerðum þetta töluvert betur í seinni hálfleik. Frammistaðan var betri þá en leikurinn líka lokaðri heilt yfir.
Það er margt jákvætt sem við getum tekið úr þessum leik, við vorum að prófa hluti og rótera liðinu mikið.“
Viðtalið í heild er hér að neðan.
🎙️ Viðtal við Þorstein H. Halldórsson, þjálfara A kvenna, eftir tapið gegn Danmörku.#viðerumísland pic.twitter.com/5yy6cGDSrN
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) December 2, 2024