Ruben Dias, miðvörður Manchester City, var pirraður við fréttamann eftir tap liðsins gegn Liverpool í gær.
Liverpool náði 11 stiga forskoti á City með 2-0 sigri, en síðarnefnda liðið hefur ekki unnið í sjö leikjum í röð.
Eftir leik var Dias spurður út í framhaldið.
„Það eina sem við erum að hugsa um núna er að vinna næsta leik gegn Nottingham Forest,“ sagði hann.
Dias var því næst spurður að því hvernig stemningin hafi verið inni í klefa eftir leik og samskipti leikmanna á milli.
„Þú veist að þú ert að tala við leikmann eins besta liðs í heimi og þess sem hefur unnið mest undanfarin ár? Hugsaðu kannski aðeins um það, við vitum hvernig á að bregðast við,“ sagði Portúgalinn þá pirraður.