Svo gæti farið að Roberto Olabe taki við sem yfirmaður íþróttamála hjá Arsenal á næstunni og taki þar með við af Brasilíumanninum Edu, sem hætti óvænt nýverið.
Olabe er að yfirgefa slíka stöðu hjá Real Sociedad en þar hefur hann náð frábærum árangri í starfi. Hefur hann tekið þátt í því að tryggja liðinu bikarmeistaratitilinn á Spáni 2021 og að koma liðinu aftur í Meistaradeild Evrópu í fyrra.
Olabe hefur verið orðaður við fjölda liða en Foot Mercato segir viðræður við Arsenal nú komnar langt á veg.
Fleiri miðlar hafa orðað Olabe við Arsenal og um helgina greindi Sky í Þýskalandi til að mynda frá því að fari hann þangað gæti það ýtt undir að Alexander Isak gangi í raðir Arsenal. Olabe sótti hann til Sociedad á sínum tíma, en sænski framherjinn var svo seldur til Newcastle.
Olabe sótti einnig Orra Stein Óskarsson til Sociedad í sumar frá FC Kaupmannahöfn.