Íslandsmeistarar Breiðabliks hafa áhuga á Stefáni Inga Sigurðarsyni samkvæmt sparkspekingnum Kristjáni Óla Sigurðssyni í Þungavigtinni.
Stefán fór frá Blikum út í atvinnumennsku fyrir um einu og hálfu ári síðan, þá til Patro Eisden í Belgíu. Í sumar gekk hann svo í raðir Sandefjörd í norsku úrvalsdeildinni. Hann er samningsbundinn þar í þrjú ár til viðbótar.
„Ég var að heyra að hann væri á radarnum en hann er samningsbundinn í Noregi, svo það þarf að rífa upp veskið,“ sagði Kristján í þætti dagsins af Þungavigtinni.
„Það er sennilega draumur þeirra að Ísak (Snær Þorvaldsson) komi heim en þetta er væntanlega „back-up“ planið. Þeir taka þá varla báða.
Stefán skoraði 4 mörk í Noregi og getur skorað svona 30 mörk í Bestu deildinni ef hann væri í Breiðabliki eða Víkingi.“
Blikar hafa þegað fengið þá Óla Val Ómarsson, Valgeir Valgeirsson og Ágúst Orra Þorsteinsson í vetur.