Age Hareide hætti sem landsliðsþjálfari nýlega og síðan hefur leit að nýjum manni staðið yfir. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, hefur verið sterklega orðaður við stöðuna. Þá hefur Freyr Alexandersson, sem nú er án starfs eftir að hafa verið sagt upp hjá Kortrijk, einnig verið nefndur til sögunnar.
„Við erum komin á góðan stað í dag en mér finnst ólíklegt að við fáum nýjan þjálfara í jólagjöf. Þetta er ákveðið ferli, sem við erum að klára innanhúss, um það hvernig við sjáum þetta fyrir okkur og hvernig manneskju við erum að leita að. Ég geri fastlega ráð fyrir því að línur verði farnar að skýrast eftir tvær til þrjár vikur,“ segir Þorvaldur við mbl.is.
„Það hafa mörg nöfn verið nefnd til sögunnar í fjölmiðlum en það hefur enginn verið boðaður í viðtal enn sem komið er. Við höfum rætt við fólk í kringum okkur og innan knattspyrnuhreyfingarinnar og svo kemur að þeim tímapunkti að við förum í það að ræða beint við mögulega þjálfara.
Við munum ræða við þrjá til fjóra þjálfara og mynda okkur svo skoðanir út frá þeim viðtölum. Eins og ég kom inn á áðan væri frábært ef næsti landsliðsþjálfari yrði Íslendingur en stundum er það einfaldlega ekki hægt,“ segir Þorvaldur, sem vill helst ráða innlendan þjálfara.