Óskar, sem í dag er þjálfari KR, var þjálfari Blika og Ólafur yfirmaður knattspyrnumála. Ólafi var sagt upp á miðju tímabili 2023 og hvarf Óskar á braut um haustið.
Mikið fjölmiðlafár var í kringum Kópavoginn á þessum tíma og því haldið fram að Óskar og Ólafur hafi náð illa saman í starfi.
„Það snerist ekki um það að við höfum unnið mikið eða lítið saman. Þetta snerist fyrst og fremst um það að ég upplifði að það vantaði nákvæma skilgreiningu á starfi yfirmanns knattspyrnumála. Mögulega vantaði Óla líka umboð til þess að klára hluti,“ sagði Óskar í Dr. Football.
Hann viðurkennir að hann og Ólafur hafi ekki alltaf verið sammála.
„Ég kann rosalega vel við Óla Kristjáns og ber mikla virðingu fyrir honum. Jú, jú, við erum báðir skapmenn og rifumst eins og gengur þegar menn eru með ástríðu en það risti aldrei djúpt.
Ég held að stærsti hlutinn af þessu sé að það er búin til staða sem er ekki nægilega vel skilgreind og tólin sem Óli fær í hendurnar voru bara ekki nægileg til að hann gæti sinnt þessu starfi almennilega,“ sagði Óskar enn fremur.