Wayne Rooney, Manchester United goðsögn og stjóri Plymouth, er ekki sá vinsælasti hjá stuðningsmönnum B-deildarliðsins.
Plymouth hefur gengið bölvanlega undanfarið, tapað fjórum leikjum í röð og er í næstneðsta sæti deildarinnar þegar mótið er að verða hálfnað. Talið er sæti Rooney sé mjög heitt.
Rooney er þó ekki bara óvinsæll vegna gengisins heldur varð allt vitlaust eftir að eiginkona hans, Coleen, birti mynd af þeim saman á jólamarkaði í Manchester.
Birtist myndin sama dag og viðburður á vegum Plymouth fyrir börn var haldinn. Þar héldu aðdáendur að þeir myndu hitta fyrir Rooney og borguðu 40 pund fyrir. Samkvæmt einhverjum stuðningsmönnum var hins vegar tilkynnt kvöldið áður að stjórinn myndi ekki mæta. Þann dag sem viðburðurinn var haldinn birtist svo myndin af honum og Coleen á jólamarkaðnum.
„Svo er hann bara með fjölskyldunni á jólamarkaði. Algjör svikari,“ skrifaði einn stuðningsmaður Plymouth.
Aðrir virtust pirraðir á því að Rooney færi á jólamarkað yfirhöfuð á meðan gengi liðsins er svo slappt.
„Hann ætti að vera á æfingasvæðinu eins mikið og mögulegt er.“
Enskir miðlar hafa þó greint frá því nú að það hafi aldrei staðið til að Rooney mætti á umræddan viðburð á vegum Plymouth.