Það vakti eflaust athygli margra sem kveiktu á leik Arsenal og Crystal Palace sem stendur yfir að Kieran Tierney er í byrjunarliði fyrrnefnda liðsins.
Um er að ræða fyrsta leik skoska bakvarðarins í byrjunarliði Arsenal í næstum 600 daga. Hann kom þá síðast við sögu með Skyttunum í leiknum við Manchester City um Samfélagsskjöldinn í ágúst í fyrra.
Í kjölfarið fór hann á láni til Real Sociedad en Tierney hefur verið í hópnum nokkrum sinnum á þessari leiktíð.
Nokkrir leikmenn sem almennt eru ekki inni í myndinni fá traustið hjá Mikel Arteta í þessum deildarbikarleik. Má þar nefna Raheem Sterling og Gabriel Jesus.
Um er að ræða leik í 8-liða úrslitum og leiðir Palace 0-1 eftir rúman hálftíma.