„Við styðjum hann allir,“ segir Enzo Maresca, stjóri Chelsea, um Mykhailo Mudryk, sem í gær var settur í bann fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi.
Leikmaðurinn kveðst saklaus og að hann hafi ekki vitað að hann hafi tekið inn ólögleg efni, ef svo var.
Mudryk og félagið gáfu út yfirlýsingu þar sem fram kom að báðir aðilar myndu hjálpa við rannsókn málsins, en á meðan hefur Úkraínumaðurinn verið settur til hliðar.
„Félagið gaf út yfirlýsingu og það er engu við hana að bæta. Við trúum því allir að hann sé saklaus og vitum að hann kemur aftur, þó við vitum ekki nákvæmlega hvenær. Ferli hans hjá Chelsea er ekki lokið,“ sagði Maresca enn frekar.
Mudryk gekk í raðir Chelsea fyrir tæpum tveimur árum frá Shakhtar, fyrir kaupverð sem gæti orðið allt að 100 milljónir punda. Það er þó óhætt að segja að hann hafi ekki staðið undir væntingum.